Fjármálaráðherra ætlar að leggja til hliðar áform um breikkun gjaldstofn kolefnisgjalds, sem gagnrýnd hefur verið harðlega af talsmönnum álframleiðslufyrirtækja og fleiri. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins. SA og fulltrúar helstu fyrirtækja sem ætlað var að greiða kolefnisgjald af föstu kolefni áttu í dag fund með fjármálaráðherra og fulltrúum iðnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins.

Fjármálaráðherra mun hafa lýst því yfir að hann myndi leggja til hliðar áform um breikkun stofns kolefnisgjalds sem finna má í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hann mun einnig hafa ítrekað fyrirheit um að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja sem reka starfsemi sína hér á landi gagnvart erlendum samkeppnisaðilum. Þá leggi stjórnvöld áherslu á að tryggja að forsendur þeirra fjárfestingaverkefna sem unnið hefur verið að raskist ekki.