Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) er harðorður í garð ríkisstjórnarinnar. Hann segir að vegna afstöðu stjórnvalda til tryggingargjalds og sinnuleysis í húsnæðismálum ríki mikil óvissa á vinnumarkaði. Þá hafi launastefna hins opinbera leitt til þess að forsendur kjarasamninganna, sem ASÍ og Samtök atvinnulífsins (SA) undirrituðu 29. maí, séu brostnar. Kjarasamningarnir koma til endurskoðunar í febrúar þá verða þrjár meginforsendur þeirra metnar.

„Í fyrsta lagi launastefnan sjálf, að þeir kjarasamningar sem við gerðum yrðu grundvöllur lausna í landinu ef ekki þá áskildum við okkur rétt til að fá að endurmeta stöðuna," segir Gylfi. „Í öðru lagi kaupmáttur launa og verðbólga, kaupmáttur er að vaxa þannig að það reynir ekkert á þetta núna. Í þriðja lagi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana."

Krafa um jafnræði

Launastefnan sem mörkuð var með samningum ASÍ og SA kvað á um 18,5% launahækkun á almenna markaðnum á þremur árum.
„Það er vitað mál að þessi forsenda varðandi launastefnuna er brostin vegna gerðardómsins," segir Gylfi og vísar til gerðardóms í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og BHM í lok sumars. „Niðurstaða dómsins var að það væri ekki hægt að úrskurða þessum hópum 18,5% hækkun þegar ríkið hefði samið við kennara og lækna um 30%. Hin eiginlega launastefna í landinu eru því sú stefna sem hið opinbera markaði en ekki sú stefna sem við mörkuðum. Við gerum auðvitað kröfu um að það ríki jafnræði á vinnumarkaði. Að launafólk á almenna markaðnum fái sömu launahækkanir og opinberir starfsmenn.

SA hefur farið fram á að stjórnvöld lækki tryggingagjaldið, launatengd gjald sem lagt er á atvinnurekendur. Gjaldið var 5,34% árið 2008 en vegna aukins atvinnuleysis var það hækkað verulega eftir hrun. Í dag stendur gjaldið í  7,49% og Bjarni Benediktsson hafnað því mjög eindregið að lækka það.

„Það höfðu allir skilning á nauðsyn þess að hækka tryggingagjaldið í kreppunni en þá gegn því að það myndi lækka þegar staðan á vinnumarkaði myndi batna.

Mér finnst mjög skrítið hjá fjármálaráðherra að saka atvinnulífið um að hafa gengið of langt í launahækkunum og vilja þess vegna lækkun á tryggingagjaldinu. Þetta er beinlínis rangt. Það er ekki búið að hækka laun á almenna markaðnum til jafns við það sem hið opinbera samdi um. Kostnaðarmat okkar samninga var 18,5% en hins opinbera 30%."

Allt í bál og brand

„Fjármálaráðherra hefur þetta í hendi sér. Mér sýnist á öllu að hann hafi lagt sig sérstaklega fram um það að þetta fari allt saman í sundur í febrúar og ætli það sé ekki líklegast að honum verði að ósk sinni. Ef sú verður raunin þá verða kjarasamningar lausir og friðarskyldan frá. Ef við segjum samningunum upp í febrúar þá munu öll önnur stéttarfélög, sem hafa samið á undanförnum vikum og mánuðum, líka fá uppsagnarheimild. Þá fer allt í bál og brand í landinu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .