Fjármálaráðherra Bretlands segir að hækka þurfi skatta og draga úr útgjöldum ef kjósendur hafni áframhaldandi aðild landsins að Evrópusambandinu. Kosningar um aðild landsins að ESB verða á fimmtudaginn í næstu viku, þann 23. júní, en George Osborne fjármálaráðherra hefur verið stuðningsmaður áframhaldandi aðildar.

Kannanir sýna meira fylgi við úrsögn

Skoðanakannanir benda til þess að fylgjendur úrsagnar Bretlands úr sambandinu séu að sækja í sig veðrið, en könnun frá TNS Omnibus sem birtist í gær sýnir að þeir sem vilja úrsögn séu ofaná með 35% stuðning en fylgjendur aðildar séu með 33%.

Restin var óviss eða hugðist ekki taka afstöðu. Ef miðað er við væntingar um kosningaþátttöku eru úrsagnarsinnar með 47% en aðildarsinnar með 40%.

Greiðslur sem nema 8 milljörðum punda falla niður

Osborne segir að úrsögn þýði að setja þyrfti neyðarfjárlög þar sem þyrfti að hækka skatta og minnka eyðslu því þvert á það sem andstæðingar aðildar segji þá muni úrsögn úr sambandinu þýða minni tekjur ríkissjóðs.

Er þetta byggt á væntingum um minni hagvöxt vegna úrsagnarinnar sem hugveitan Fiscal Studies kom með, en fylgismenn úrsagnar segja þvert á móti að meira fé væri aflögu fyrir ríkið við úrsögn því ekki þyrfti lengur að borga 8 milljarða punda á ári til sambandsins.