Komast þarf að því hvaða áhrif gengislánadómur Hæstaréttar mun hafa og fyrir hverja hann gildir áður en tekið verði til skoðunar hvað verði gert til að rétta hlut skuldsettra heimila, að sögn Oddnýjar G. Harðardóttur, fjármálaráðherra. Hún sagði í svari sínu við fyrirspurn Péturs Blöndals, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag dóminn hafa komið róti á hlutina.

Pétur spurði ráðherra m.a. hvort Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hafi haft samráð við hana um málið um almenna leiðréttingu á húsnæðislánum og hvort hún vissi hver staða heimilanna væri.

Oddný svaraði því til að margir þingmenn hafi reynt að endurmeta stöðuna og sett fram hugmyndir að lausnum.

„Hver einasti þingmaður er að velta þessum hlutum fyrir sér og færum leiðum. Ábyrgt að skoða allar leiðir sem eru settar fram með opnum huga. En mikilvægt er að skoða stöðu ríkissjóðs. Allir græða á því, líka skuldug heimilli, að haldið er á jöfnuði í ríkisfjármálum.“