„Frekari endurskoðun á nýtingu skattkorta kemur vel til álita, ekki síst í ljósi sívaxandi rafrænna samskipta. Hins vegar má ekki útiloka þann möguleika að unnt verði til framtíðar að leggja skattkortin af og fela jafnvel launagreiðandanum, launamanninum eða þeim sameiginlega ábyrgðina á réttum skattafdrætti," segir í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Róberts Marshall þingmanns Samfylkingarinnar.

Fyrirspurnin var einföld: Er ekki ráð að taka upp rafræn skattkort?

Í svarinu er bent á að sérstakir þjónustureikningar fyrir skattgreiðendur þar sem unnt væri að fylgjast með fjárhagsstöðu viðkomandi gagnvart hinu opinbera á hverjum tíma sé líka kostur sem önnur lönd hafa verið að nýta.

Einfalt sé ekki skipt um vinnu

Hlutverk skattkortsins er að tryggja réttan skattafdrátt í staðgreiðslu. Notkun þeirra er tiltölulega einföld starfi launamaður samfellt yfir lengri tíma hjá einum launagreiðanda, en séu launagreiðendur fleiri en einn, launþegi vinni hluta úr ári eða skipti reglulega um vinnuveitendur geta mál orðið flókin og skapað nokkurt umstang, jafnt hjá launamönnum, launagreiðendum og skattyfirvöldum.

Breyting felur í skér talsverðan kostnað

„Varðandi kosti til einföldunar hafa komið til umræðu leiðir eins og að almennum launagreiðendum verði veittur einhvers konar aðgangur að staðgreiðsluupplýsingum launamanna, tekið verði upp endurgreiðslufyrirkomulag á nýttum persónuafslætti, skattkort send rafrænt milli tölva samkvæmt beiðni eða það verði alfarið á hendi launamanns að upplýsa launagreiðanda um stöðu persónuafsláttar. Allar þessar leiðir mundu hafa talsverðan kostnað í för með sér sem og áframhaldandi umstang. Jafnframt þarf að huga vel að persónuverndarsjónarmiðumm" segir í svari fjármálaráðherra.