Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vill stofna sérstakan Orkuauðlindasjóð fyrir arðgreiðslur Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja í ríkiseigu. Þetta kom fram í máli hans á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir í Hörpu.

Sjóðnum yrði ætlað að vera stöðugleikasjóður, eins konar varasjóður ríkisins, til þess að jafna út efnahagssveiflur. Sjóðurinn yrði jafnframt notaður til þess að byggja upp innviði samfélagsins, eins og spítala og menntakerfi.

Sagði Bjarni að nú væri rétti tíminn til þess að taka ákvörðun um stofnun slíks sjóðs. Meginhugsunin að baki sjóðnum væri að byggja upp höfuðstól og efnahagslegan stöðugleika til langs tíma. Lagt væri til hliðar í uppsveiflum, en í niðursveiflum væri hægt að blása lífi í hagkerfið með greiðslum úr sjóðnum.