Fjármálaráðherrar evruríkja hittast síðar í dag í Brussel og ræða möguleika á að stækka björgunarsjóð evruríkja. Sjóðurinn hefur nú heimild til þess að taka lán á markaði fyrir allt að 440 milljarða evra með ríkisábyrgð evruríkja. Sjóðurinn gæti hinsvegar misst AAA lánshæfiseinkunn sína ef til þess kemur að lána þarf Spáni og Portúgal.

Spjótin hafa nú beinst að ríkjunum tveimur og telja margir að næst þurfi að koma Portúgal til bjargar. Ráðamenn þar í landi hafa þó þvertekið fyrir slíkt. Bæði ríkin réðust í skuldabréfaútboð fyrir helgi, og teljast hafa heppnast ágætlega.

Í frétt Reuters segir að samþykki Þýskalands, stærsta efnahagsins á evrusvæðinu, sé lykillinn að stækkun sjóðsins. Óvíst er hvort Þjóðverjar styðji stækkun, en fjármálaráðherra landsins lét hafa eftir sér að enginn þörf væri fyrir stærri björgunarsjóð.