Fjármálaráðherrar evruríkjanna munu síðar í dag halda símafund þar sem tillögur grísku ríkisstjórnarinnar að aðhaldsaðgerðum og hagræðingu í ríkisrekstri verða ræddar. Til að fjögurra mánaða framlenging á neyðarláninu til Grikkja geti gengið eftir verður að nást samkomulag sem allir aðilar geta sætt sig við.

Grikkir skiluðu tillögunum í gærkvöldi og munu framkvæmdastjórn ESB, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og evrópski seðlabankinn fara yfir tillögurnar áður en þær verða ræddar á fundi fjármálaráðherranna. Um 76% af heildarskuldum gríska ríkisins eru við þessa þrjá aðila.

Talsmaður fjármálaráðherra evruríkjanna, Jeroen Dijsselbloem sagði á blaðamannafundi að of snemmt væri að segja til um hvort tillögurnar yrðu samþykktar, en sagði þó að Grikkjum væri mikil alvara með að mæta þeim kröfum sem til þeirra væru gerðar og að þeir vildu standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.

Að óbreyttu rennur björgunaráætlun Grikklands út um næstu mánaðamót og eru því aðeins nokkrir dagar til stefnu eigi framlenging lánsins að nást í gegn.