Talsmaður fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna segir að það hafi vitað til fjölda ára að Vladimir Pútín sé spilltur. Bandaríkjastjórn hefur þegar beitt Rússlandi, og Pútín sjálfum, efnahagsþvingunum en þetta er í fyrsta skipti sem stjórnin segir það beint út að hann sé spilltur. Þetta kemur fram í frétt BBC . Þetta er haft eftir Adam Szubin sem er yfirmaður efnahagsþvinganadeild ráðuneytisins.

Hann sagði einnig að Bandaríkin hefðu fylgst með Pútín raða í kringum sig bandamönnum og losa sig við þá sem voru honum ekki þóknanlegir. Þetta hefur verið í gangi bæði hvað varðar stöður innan ríkisfyrirtækja eða samningar ríkisins við fyrirtæki.

Szubin sagði einnig að Pútín hefði tekist að sanka að sér töluverðum auð. Hann vildi þó ekki tjá sig um skýrslu frá CIA frá árinu 2007 sem greindi frá því að eignir Pútín næmu um 40 milljörðum Bandaríkjadala.

Talsmaður Pútín hefur hafnað þessum ásökunum og segir þær uppspuna með öllu.

Í síðustu viku kom út skýrsla frá breskum yfirvöldum sem sagði að Pútín hefði  „líklega“ samþykkt morðið á fyrrverandi rússneska njósnaranum Alexander Litvinenko.