Fjármálaráðuneytið hefur auglýst tvær bújarðir til ábúðar, annars vegar Myrká í Hörgárbyggð og hins vegar Fellsás í Breiðdalshreppi. Töluverður munur er á stærð jarðanna, því Fellsásjörðin er 135 hektarar að stærð á meðan Myrká er 1.540 hektarar. Ræktað land á jörðunum tveimur er þó mjög svipað, því stærstur hluti Myrkárlandsins er rýrt land og gróðursnautt fjalllendi. Ræktað land Myrkár er 24,7 hektarar og Fellsáss 24,9 hektarar samkvæmt loftmynd. Ekkert greiðslumark fylgir jörðunum.

Á Myrká var prestssetur fram yfir miðja nítjándu öld og kirkja stóð þar fram á þá tuttugustu. Kirkjugarðurinn er ennþá notaður og sáluhliðið með klukkunum stendur þar enn. Á Myrká á þjóðsagan um djáknann á Myrká að hafa gerst.

Fjármálaráðuneytið tekur mið af landbúnaðarhagsmunum við val á ábúanda og er þar sérstaklega tekið til greina hvort umsækjandi hafi menntun á sviði landbúnaðar og aðra hagnýta menntun, hvort hann hafi starfsreynslu í landbúnaði og það hvort áform um framtíðarnýtingu jarðarinnar teljist raunhæf.

Ársleiga á Fellsási verður um 450.000 krónur, eða um 37.500 krónur á mánuði. Ársleiga á Myrká verður um 750.000 krónur, eða um 62.500 krónur á mánuði. Lesa má nánar um jarðirnar á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.