Engin athugun hefur farið fram á vegum fjármálaráðuneytisins hvort 31,2% eignarhlutur Landsbanka Íslands í greiðslukortafyrirtækinu Borgun hf. hafi verið seldur á hæsta mögulega verði. Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur.

Landsbankinn, sem er í 98% eigu ríkisins, seldi 31,2% hlut í Borgun til Eignarhaldsfélagsins Borgun slf. á 2,2 milljarða króna í lok síðasta árs. Hluturinn var ekki auglýstur, heldur settur í lokað söluferli.

Svandís spurði ráðherrann meðal annars hvers vegna hluturinn hafi verið settur í lokað söluferli og hvort slíkt samræmist eigendastefnu ríkisins gagnvart Landsbankanum. Í svarinu kemur fram að Bankasýsla ríkisins annist samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið eigi eignarhluti í. Það sé því hlutverk Bankasýslunnar að meta hvort salan hafi samrýmst eigendastefnunni.

Þá spurði Svandís hvort fjármálaráðherra hafi látið gera óháða athugun á því hvort 2,2 milljarðar króna sé hæsta verð sem hægt hefði verið að fá fyrir hlutinn í Borgun. Í svarinu segir að slík athugun hafi ekki farið fram, en ef framkvæma ætti slíka athugun væri það verkefni Bankasýslu ríkisins.