Bandaríkin gætu hámarkað lagalega heimild til lántöku þann 31. mars næstkomandi með alvarlegum afleiðingum ef þingið bregst ekki við með auknum heimildum, segir Timothy Geithner fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

„Greiðslufall myndi hafa hörmulegar afleiðingar, jafnvel þó einungis yrði um að ræða skammtímaskuldir eða takmarkað greiðslufall,“ segir Geithner í bréfi til leiðtoga meirihlutans í öldungardeild Bandaríkjanna. Hann segir að áratugi tæki að vinna úr vandanum sem skapist.

Ríkissjóði Bandaríkjanna er heimilt að taka lán fyrir 14,3 triljónir. Í bréfinu segist fjármálaráðherrann ekki vita nákvæmlega hvenær þessu þaki verður náð en hvetur þingið til að bregðast við fyrir 31. mars 2011. Líklegast sé að skuldir verði orðnar svo háar á tímabilinu 16. mars til 31. mars.

Geithner varar einnig við að ef þingi tekst ekki að hækka heimildina þá gæti það leitt til þess að Bandaríkin geti ekki staðið við skuldbindingar sínar í fyrsta sinn í sögunni. Afleiðingar þess yrðu mögulega mun verri en afleiðingar fjármálakreppunnar.