Í fréttatilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu segir að fjármálaráðherra hafi fallist á  að lengja lokafrest Skipta hf. til að bjóða út 30% hlutafjár. Í tilkynningunni kemur fram að skráningu skuli vera lokið fyrir marslok 2008 í stað ársloka 2007 eins og kveðið var á um í samningi Skipta ehf. og íslenska ríkisins frá 5. ágúst 2005.

Ákvörðun fjármálaráðherra byggir á því að þátttaka Skipta hf. í söluferli slóvenska símafélagsins, Telekom Slovenije, geri það að verkum að ekki sé eins og sakir standa unnt að uppfylla þau skilyrði sem lög setja um að lýsing skuli innihalda þær upplýsingar sem með hliðsjón af eðli útgefandans og verðbréfanna séu nauðsynlegar fjárfestum til þess að þeir geti metið eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, afkomu og framtíðarhorfur útgefanda sem og þau réttindi sem fylgja verðbréfunum.

Fyrir liggur sú afstaða Kauphallarinnar að umfang umræddra kaupáforma Skipta hf. og hugsanlegar afleiðingar séu þess eðlis að telja verði að frestur sé vafalítið í þágu fjárfesta og markaðarins. Kauphöllin mælir því með því að hlutabréf Skipta hf. verði tekin til viðskipta í Kauphöllinni á fyrsta ársfjórðungi 2008 en ekki í desember næstkomandi eins og stefnt hafi verið að, segir í tilkynningunni.