Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að góður framgangur sé í Icesave-viðræðunum. Hann segist hafa fengið bréf frá hollenska fjármálaráðherranum í gær þar sem kvað við jákvæðari tón en hingað til.

Þetta kom fram í máli Steingríms á opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun. Steingrímur sagði þar mikilvægt að Hollendingar og Bretar legðu ekki steina í götu eðlilegrar áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi.

Svavar Gestsson, formaður íslensku samninganefndarinnar í Icesave-viðræðunum, átti í gær fund með fulltrúum breska fjármálaráðuneytisins og sagði Steingrímur á fundi fjárlaganefndar í morgun að andrúmsloftið í samningaviðræðunum væri jákvæðari nú en áður.