Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist fagna því að vaxtalækkunarferli sé loksins hafið „en auðvitað hefði maður gjarnan þegið að menn treystu sér til þess að taka stærri skref," segir hann. „Þetta er þó í rétta átt."

Steingrímur segir mikilvægt að bankinn hafi gefið undir fótinn með það að vaxtaákvarðanir verði tíðari. Fram kom á fundi Seðlabankans í morgun að næsti vaxtaákvörðunardagur yrði 8. apríl en áður stóð til að hann yrði 25. júní.

„Ég kýs að lesa þetta þannig að Seðlabankinn vilji fara varlega af stað en hafa stutt á milli skrefa," segir hann. „Við skulum vona að við sjáum þá þróun að vextirnir fari þá niður þó það verði í smærri en tíðari skrefum."

Steingrímur segist gera sér grein fyrir því að margir hafi gert sér vonir um stærra skref strax í upphafi. Mestu máli skipti hins vegar að þessi þróun geti haldist áfram óslitið. Hún verði öll í eina átt; að vextir fari niður.

„Ég held að allar aðstæður séu til staðar til þess," segir hann og bætir því við að hann treysti því að við munum sjá hratt vaxtalækkunarferli á öðrum ársfjórðungi. „Það er algjörlega lífsnauðsynlegt fyrir okkur að það gerist."

Steingrímur kveðst aðspurður hafa skynjað það á fundi sínum með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nýverið að þeir væru sammála því að það væru að skapast forsendur fyrir því að vextir færu að lækka.