Stjórnendur VBS leituðu ekki eftir samþykki hjá fjármálaráðuneytinu um form- eða skilmálabreytingar á veittum lánum félagsins. Hvorki á lánum veittum til starfsmanna né til annara viðskiptamanna félagsins. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra til Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem lagt var fram á Alþingi í dag.

Hópur stjórnenda innan VBS fjárfestingabanka lengdu gjalddaga kúlulána sem þeir voru með hjá bankanum eftir að hann fékk ríkislán til að starfa áfram til ársins 2017. Lánin áttu öll að vera á gjalddaga mun fyrr.

Með þessu komu umræddir stjórnendur sér undan því að greiða lánin næstu sjö árin, en þau bera öll einn gjalddaga.

Á þeim tíma sem lánin voru flutt var VBS ógjaldfær og því í raun óstarfhæfur. Heildarumfang lána til forstjórans Jóns Þórissonar, lykilstarfsmanna og stjórnarmanna félagsins var um einn milljarður króna í lok árs 2008.

Ósvarað hvort gætt var að hagsmunum ríkisins

Í svari Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, segir að í skilyrðum sem veitt voru fyrir láni ríkisins til VBS megi lesa að lánveiting til venslaðra aðila skuli ekki aukin og að aukning útlána sé ekki bönnuð. Svo segir: „Það getur verið skilgreiningaratriði hvort lenging lána sé í eðli sínu nýtt lán eða ekki. Ef hún er metin sem nýtt lán er mögulega brotið gegn 6. gr. lánasamningsins (hann má finna á heimasíðu fjármálaráðuneytisins) þar sem kveðið er á um að „vöxtur útlánasafns leiði ekki til skerts endurgreiðsluhæfis lántaka“ og þá einnig 9. gr. þar sem segir „fyrirgreiðslum við venslaða aðila skal ætíð stillt í hóf og hagsmuna ríkissjóðs gætt í hvívetna við slíkar fyrirgreiðslur“.

Fjármálaráðuneytið hefur enga vitneskju um hvort og þá hvernig staðið var að fyrirgreiðslu til starfsmanna á umræddu tímabili og er því ekki í stakk búið til að meta hvort hagsmunum lánveitanda hafi ekki verið gætt í hvívetna," segir í svari fjármálaráðherra.

Svar við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur má sjá í heild sinni hér .