Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, tóku þátt í umræðu íslenska efnahagslífið á sjónvarpsstöðinni CNBC í dag.

Aðspurður um ójafnvægi í íslenska hagkerfinu sagði Árni að eitthvað myndi hægja á hagvexti á næsta ári og nálgast 2%, sem er í samræmi við hagvöxt á evrusvæðinu. Árni sagði hagvöxtinn verða 5,5% á þessu ári og að það muni takast að ná tökum á verðbólgunni.

Bjarni sagði fjárfestingar íslenskra fyrirtækja og banka erlendis dreifa áhættunni og gera það að verkum að útrásarfyrirtækin eru ekki eins háð íslenska hagkerfinu. Glitnir mun halda kynningarfund á bankanum og íslensku viðskiptalífi í dag í íslenska sendiráðinu í London.