Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra kannaðist í síðustu viku, við upphafi Icesave-umræðunnar á Alþingi á fimmtudaginn, ekki við skýrslu bresku lögfræðistofunnar Mischon de Reya sem nú hefur verið gerð opinber.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í gær og í dag var skýrslan send fjármálaráðuneytinu en stíluð sérstaklega á Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

Áður en umræðan hófst hafði mikill fjöldi gagna verið gerður opinbert og birtur á vefnum island.is. Auk þess hafði verið útbúin mappa með gögnum sem einungis voru aðgengileg þingmönnum.

Í umræðum um málið spurði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fjármálaráðherra hvort til væru einhver lögfræðiálit í málinu sem enn ætti eftir að leggja fram.

Spurning Höskuldar var svohljóðandi:

„Ég vil fá úr því skorið, hér og nú, eru einhver gögn sem á eftir að leggja fram. Álit frá lögmannsstofum, erlendum, sem eiga eftir að koma fram.“

Fjármálaráðherra svaraði með eftirfarandi orðum:

„Varðandi spurninguna um gögn, þá er svarið nei. Mér er ekki kunnugt um, ég hef aldrei séð neitt skjalfest í þessu máli [...] sem ekki liggur hér í möppunum tveimur. Annars vegar þeirri stóru með 68 skjölum sem eru öllum aðgengileg, hins vegar þessari minni með rúmlega 20 skjölum sem þingmenn hafa aðgang að.“

Morgunblaðið greindi frá minnisblaði Mischon de Reya í prentútgáfu sinni í gærmorgun. Í gærdag sendi fjármálaráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem fram kom að ráðuneytið hefði fengið minnisblað frá lögmannsstofunni i tölvupósti. Hins vegar hafi komið fram í niðurlagi að minnisblaðið væri ófullgert og gæti tekið breytingum við frekari yfirferð og af þeim sökum hefði það ekki verið sent til utanríkisráðuneytisins né einstakra nefndarmanna.

Minnisblaðið hefur nú verið birt á island.is