Fjármálaráðherra hefur samþykkt tillögu Framkvæmdanefndar um einkavæðingu um að tilboði Skipti ehf. í 98,8% hlut ríkisins í Símanum verði tekið, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Tilboðið nemur 66,7 milljörðum króna og að Skipti-hópnum standa átta aðilar. Exista er með 45% hlut, Kaupþing banki með 30%, Lífeyrissjóður verslunarmanna með 8,25%, Gildi-lífeyrissjóður með 8,25%, Sameinaði lífeyrsjóðurinn með 2,25%, Samvinnulífeyrissjóðurinn með 2,25%, MP fjárfestingabanki 2% og Imis ehf. 2%.

Þrjú bindandi tilboð bárust í Símann. Tilboð Símstöðvarinnar ehf. var næsthæsta tilboðið og hljóðaði upp á 60 milljarða. Tilboð Nýja símafélagsins ehf. hljóðaði upp á rúmlega 54 milljarða.

Aðilar sem mynda Símstöðvar-hópinn eru Burðarás, Kaupfélag Eyfirðinga, Ein stutt, Talsímafélagið og Tryggingamiðstöðin. Atorka, Mósa, Straumborg og F. Bergmann Eignarhaldsfélag standa að Nýja símafélaginu.