Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra vill ekki tjá sig um þau ummæli Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, að leyfa eigi fjármálafyrirtækjum að gera upp í erlendum gjaldmiðli.

Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir að ráðherrann vilji ekki tjá sig um málið í ljósi þess að kæra Kaupþings, vegna evruuppgjörs, sé á borði ráðuneytisins.

Umrædd ummæli Þorgerðar Katrínar féllu á opnum fundi með sjálfstæðismönnum í Valhöll um helgina. Þar sagði hún: „Það er mjög auðvelt fyrir fyrirtæki, þessi alþjóðlegu fyrirtæki, með bankana kannski í broddi fylkingar, að flytja sig, og það viljum við ekki. Þess vegna er það mín skoðun að við eigum -- meðal annars líka til þess aðeins að sljákki í þessu evrutali -- að við eigum að leyfa þeim fyrirtækjum sem kjósa svo að gera upp í þeim gjaldmiðlum sem þeir óska eftir. Við verðum að vera sveigjanleg. Við höfum verið það fram til þessa og við verðum að líta fram á við og vera á undan.“