Frumvarp Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra um að söluhagnaður hlutabréfa verði skattfrjáls hefur verið birt á vef Alþingis og verður lagt fram á komandi vorþingi.  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum nokkurra laga sem varða skattlagningu á söluhagnaði lögaðila af hlutabréfum.

Annars vegar eru lagðar fram breytingar sem miða að því að heimild til frestunar á skattlagningu verði felld niður og hinsvegar að söluhagnaðurinn verði skattfrjáls að því tilskildu að hvorki verði unnt að draga hann frá öðrum tekjum né heldur geti hann myndað yfirfæranlegt tap hjá félögum.

Lögunum ætlað að stemma stigu við landflótta íslenskra fyrirtækja

Frumvarpi Fjármálaráðuneytisins er ætlað að stemma stigu við þeirri þróun sem ágerst hefur undanfarin ár að íslensk félög hafa flutt eignarhald sitt á hlutabréfum til landa sem ekki skattleggja söluhagnað hlutabréfa. Sem dæmi um þessa þróun hafa mörg íslensk félög komið á fót dótturfélögum í Hollandi í þessum tilgangi. Þá segir í umsögn Fjármálaráðuneytisins um frumvarpið að ekki liggi fyrir hversu mikill skattur sé greiddur vegna söluhagnaðar hlutabréfa. Fjármálaráðuneytið telur litlar líkur á að ríkissjóður verði að miklum tekjum vegna þessa breytinga þar sem í reynd er hægt að fresta skattlagningunni óendanlega með því að endurfjárfesta í hlutabréfum fyrir söluhagnaðinn.

Jákvæðar fréttir fyrir íslenskan hlutabréfamarkað

Greining Glitnis telur frumvarp fjármálaráðherra jákvæðar fréttir fyrir innlendan hlutabréfamarkað þar sem það felur í sér einföldun á skattkerfinu og setur skýrari reglur um meðferð söluhagnaðar. Breytingarnar eru skref í þá átt að gera íslenskt skattaumhverfi samkeppnishæft við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Í ljósi ummæla þingmanna flestra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi um skattlagningu á söluhagnaði hlutabréfa kæmi það á óvart ef frumvarpið hlyti ekki brautargengi. Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér myndi hinsvegar hafa óveruleg greiðsluflæðisleg áhrif og þar af leiðandi óveruleg bein áhrif á hlutabréfamarkaðinn.