Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, hvatti Þjóðverja í gær til að styðja sameiginlega áætlun Evrópusambandsins (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) um að lána Grikklandi 45 milljarða evra og varaði í leiðinni við því að bráðnun gríska hagkerfisins gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir evrusvæðið.

„Við getum ekki leyft gjaldþroti evruríkis á borð við Grikklands verða að öðru Lehman Brothers,“ sagði Schauble í samtali við Der Spiegel en sem kunnugt er frusu allir fjármálamarkaðir heims eftir fall bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers um miðjan september 2008.

„Skuldir Grikklands eru allar í evrum, en það liggur ekki ljóst fyrir hjá hverjum þær liggja,“ sagði Schauble.

„Afleiðingar þjóðargjaldþrots [Grikkja] yrðu óútreiknanlegar. Grikkland er kerfislega jafn mikilvægt og stór banki.“

Ummælum Schauble er þó misjafnlega tekið á meðal Þjóðverja en Reuters fréttastofan greinir frá því að skv. skoðanakönnunum þar í landi er meirihluti Þjóðverja á móti því að ESB eða einstaka ríki innan sambandsins komi Grikkjum til bjargar.

Þá hafa greiningaraðilar í Þýskalandi jafnframt varað við því að björgun Grikklands kunni að reynast Þjóðverjum, og í reynd evrusvæðinu öllu, dýrkeypt. Til dæmis hefði þýska ríkinu ekki tekist að stöðva hækkandi skuldatryggingaálag 10 ára grískra ríkisskuldabréfa (sem eru nú um 450 punktum hærri en þau þýsku) þrátt fyrir að hafa varið í það miklum tíma og fjármagni.

„Fjárfestar munu ekki hafa trú á björgun Grikklands fyrr en blekið er þornað á öllum samningum,“ hefur Reuters eftir Marc Ostwald hjá fjármálafyrirtækinu Monument Securities. Ostwald bætti því þó við að þess utan hefðu menn líka áhyggjur af því að hrun Grikklands gæti rifið niður það sem hann kallaði spilaborg og vísaði þar til evrusamstarfsins.

Endurfjármögnun lána óleyst

En það eru ekki bara Þjóðverjar sem hafa áhyggjur af vandræðum Grikklands. Framkvæmdastjóri hjá kínverska fjárfestingasjóðnum SAFE, stærsta fjárfestingasjóð heims, lét hafa eftir sér í asískum fjölmiðli í gærmorgun að Grikkland kunni að koma af stað kerfishruni á evrusvæðinu og þá verði þau ríki sem skulda mest fyrst til að falla með Grikklandi.

„Kínverjar hafa orðið áhyggjur af Evrópu,“ segir Simon Derrick, yfirmaður gjaldeyrisviðskipta hjá New York Mellon bankanum, í samtali við Reuters.

„Grikkir munu eiga í erfiðleikum með að fá einhver til að kaupa skuldir sínar. Asíubúar hafa litla þolinmæði og staðan kann einnig að draga úr áhuga bandarískra fjárfesta.“

Grikkir hyggja á 1,5 milljarða evra útgáfu á skammtímaskuldabréfum í dag. Flestir bíða þó spenntir, ef þannig má til orða taka, eftir stórum gjalldögum gríska ríkisins um miðjan maí en þá eru um 8,5 milljarður evra á gjalddaga sem enn á eftir að endurfjármagna.