Fjármálaráðherrar G20, tuttugu stærstu hagkerfa heimsins, samþykktu á fundi sínum í dag að gerðar yrðu meiri kröfur til eiginfjárhlutfalls banka í framtíðinni. Samþykktin gerir ráð fyrir takmörkunum á skuldsetningu þegar alþjóðahagkerfið kemst út úr kreppunni, auk strangari skilgreininga fyrir eiginfjárhlutfall, svokallaðs Tier 1. Þetta mun knýja banka til að vera með meira eigið fé til að verjast mögulegu tapi, að því er segir í frétt WSJ.

Í fréttinni segir að þetta sé sigur fyrir fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Timothy Geithner, sem hafi fyrr í vikunni kallað eftir strangari eiginfjárkröfum til banka.

Þak á bónusa

Fjármálaráðherrarnir og seðlabankastjórar náðu einnig samkomulagi um viðmiðun fyrir bónusgreiðslur til bankamanna, sem felur í sér þak á það sem einstaklingar geta fengið.