Á fundi fjármálaráðherrar EFTA- og ESB-ríkjanna í Brussel í gær var rætt um áhrif breyttrar aldurssamsetningar á hagvöxt og ríkisfjármál í löndum Evrópu. Samkvæmt mannfjöldaspám evrópsku hagstofunnar (Eurostat) mun fólki á vinnualdri fækka enn hraðar í hlutfalli við fólk á eftirlaunum en verið hefur. Áætlað er að frá og með árinu 2010 taki fólki á vinnualdri innan ESB-ríkjanna beinlínis að fækka. Mun þetta leiða til aukinna útgjalda hins opinbera til lífeyris- og heilbrigðismála.

Af hálfu ESB var Gerrit Zalm, fjármálaráðherra Hollands, í forsæti en Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, var í forsæti fyrir EFTA ríkin.

Ráðherrarnir urðu sammála um að þessar horfur kölluðu á umbætur og kerfisbreytingar í bæði lífeyris- og heibrigðismálum. Ræddu ýmsir um nauðsyn þess að auka atvinnuþátttöku, sérstaklega á meðal kvenna og eldra fólks. Víða þyrfti að hækka lífeyristökualdur, auka sveigjanleika á vinnumarkaði og efla lífeyrissjóði.

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, gerði grein fyrir skipulagi lífeyrismála
hér á landi en horfur í lífeyrismálum hér á landi eru almennt taldar betri
hér en annars staðar.

Á fundinum var einnig fjallað um lánaramma Evrópska fjárfestingabankans til EFTA landanna.