Í nýju vefriti fjármálaráðuneytisins er vakin athygli á leiðbeiningum sem fjármálaráðuneytið setti í ársbyrjun 2006 um þau viðmið og gildi sem ríkisstarfsmanni ber að fylgja í störfum sínum segir m.a. að ríkisstarfsmaður skuli ekki þiggja eða sækjast eftir gjöfum eða fjármunum frá einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi hans ef almennt má líta á það sem endurgjald fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

Sanngjarnt sé að víkja frá þessu ef um afmælisgjafir eða annars konar tækifærisgjafir er að ræða, enda séu verðmæti þeirra innan hóflegra marka. Skal hafa samráð við yfirmann ef vafi leikur á hvort starfsmanni sé heimilt að taka við gjöf. Leiðbeiningarnar voru settar fram í formi dreifibréfs sem sent var öllum ráðuneytum og ríkisstofnunum og er það jafnframt að finna á veffjármálaráðuneytisins með öðrum dreifibréfum er varða málefni ríkisstarfsmanna og ennfremur á svonefndum stjórnendavef sem fjármálaráðuneytið heldur úti fyrir stjórnendur ríkisstofnana.

Leiðbeiningarnar geyma kjarna þeirra krafna sem gerðar eru til starfa og háttsemi ríkisstarfsmanna og fram koma í skráðum og óskráðum réttarreglum. Í því sambandi er sérstaklega skírskotað til krafna um vammleysi ríkisstarfsmanna í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í leiðbeiningunum segir að þau viðmið sem þar séu sett fram verði jafnan að taka mið af aðstæðum starfsmanna á hverju sviði stjórnsýslunnar.

Er því lagt fyrir stjórnendur að meta sjálfstætt hvenær og í hvaða tilfellum sé rétt að setja frekari viðmið í formi leiðbeinandi reglna eða sérstakra siðareglna. Stjórnendur ríkisstofnana skulu tryggja að leiðbeiningarnar séu ávallt aðgengilegar starfsmönnum. Við ráðningu starfsmanna skulu leiðbeiningarnar kynntar þeim sérstaklega segir í vefritinu.