Í nýrri hagspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að viðskiptahalli þjóðarbúsins aukist um 1,4% í 16,8% á yfirstandandi ári. Meginorsökin er sögð vera mikill þáttatekjuhalli. Ráðuneytið reiknar jafnframt með 1,7% hagvexti í ár, sem er aðallega drifinn áfram af útflutningi áls. Þjóðarútgjöld munu hins vegar dragast saman um 3,1%.

Ráðuneytið reiknar með að hagvöxtur verði neikvæður um 1,6% á næsta ári. Það er síðan árið 2010 sem samdráttur í fjárfestingu mun taka viðsnúning og einkaneysla taka við sér – hagvöxtur er ráðgerður 1,1% á því ári.

Atvinnuleysi mun aukast jafnt og þétt næstu ári samfara auknum framleiðsluslaka í hagkerfinu. Fjármálaráðuneytið spáir því að atvinnuleysi muni ná 3,8% árið 2010.

Spenna á vinnumarkaði og gengislækkun krónunnar mun orsaka 11,5% meðalverðbólgu á þessu ári að mati ráðuneytisins, sem telur þó að verðbólga muni dragast hratt saman á næsta ári. Þannig telur ráðuneytið að meðalverðbólga næsta árs verði 5,7%, og að hún verði 2,8% árið 2010. Seðlabankinn mun því ná verðbólgumarkmiði sínu síðla árs 2010.