Fjármálaráðherra hefur sett Guðmund Árnason í embætti ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu frá 11. júní til 31. desember 2009.

Guðmundur hefur gegnt stöðu ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu frá árinu 2002 og hefur menntamálaráðherra veitt honum leyfi frá störfum á meðan hann gegnir starfi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Menntamálaráðherra hefur frá sama tíma sett Baldur Guðlaugsson í embætti ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu. Baldur hefur gegnt stöðu ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu frá árinu 2000 og hefur fjármálaráðherra veitt Baldri leyfi frá störfum á meðan hann gegnir starfi ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu.

Fram kemur í tilkynningunni að Guðmundur og Baldur munu snúa til fyrri starfa um næstu áramót.

Þá hefur fjármálaráðherra hefur ráðið Indriða H. Þorláksson aðstoðarmann sinn frá 11. júní 2009. Hann var m.a. skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu um langt árabil, ríkisskattstjóri frá árinu 1999 til 2006 og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu frá febrúar 2009.