Í grunnspá fjármálaráðuneytisins er miðað við að áframhald verði á nokkrum stóriðjuframkvæmdum á næstu árum. Um er að ræða byggingu álvers í Helguvík, stækkun álversins í Straumsvík og tilheyrandi orkuöflunarframkvæmdir.

Þetta kemur fram í rammagrein í Þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins fyrir árin 2009 – 2011 en ekki er gert ráð fyrir byggingu álvers á Bakka við Húsavík eða tengdra orkuvera í grunnspá.

Þá er ekki reiknað með öðrum meðalstórum fjárfestingarkostum, t.d. byggingu gagnavera eða kísiliðnaði, en slíkt hefur einnig komið til umræðu.

„Frá því að hin alþjóðlega fjármálakreppa brast á er talið að erfiðleikar á lánsfjármörkuðum hafi aukið óvissu um það hvort af þessum framkvæmdum verði,“ segir í Þjóðhagsspá ráðuneytisins.

„Á móti má benda á að ekkert hefur komið fram hjá viðkomandi fyrirtækjum sem bendir til að frestun eða stöðvun framkvæmda sé framundan. Miðað við mikilvægi málsins er áhugavert að uppfæra matið á því hver hin þjóðhagslegu áhrif framkvæmdanna eru líkleg til að vera.“

Þá kemur fram að fyrirhugaðar framkvæmdir eru áætlaðar að nema 402 milljörðum króna á nafnvirði á tímabilinu 2008-2015 og þar af er kostnaðurinn við stækkun álversins í Straumsvík metinn vera um 45 milljarðar króna. Fram kemur að krafturinn í framkvæmdunum verður mestur árin 2010-2012 en einnig verða miklar framkvæmdir næstu tvö ár þar á eftir.

„Áætlað er að á tímabilinu 2009-2015 muni framkvæmdirnar og aukinn útflutningur auka landsframleiðsluna um 4,2% að raungildi,“ segir í Þjóðhagsspánni og því er bætt við að á fyrri hluta tímabilsins er aukin landsframleiðsla að mestu tilkomin vegna aukinnar atvinnuvegafjárfestingar til stóriðju en á seinni hluta tímabilsins er aukin landsframleiðsla til komin vegna aukins útflutnings á áli.

Þá er miðað er við að framkvæmdirnar hafi það í för með sér að vaxtastigið verði 1-2,5 prósentustigum hærra en ella sem gerir það að verkum að einkaneysla og önnur fjárfesting verður lítillega minni en ella.

Hagvöxtur eykst og atvinnuleysi dregst saman, ef að framkvæmdum verður

Í spánni segir að innflutningur, sem mun að sögn ráðuneytisins aukast á fyrri hluta tímabilsins vegna aukins innflutnings fjárfestingarvara, muni verða minni á seinni hluta tímabilsins vegna minni innflutnings neyslu- og fjárfestingarvara.

„Samtals auka framkvæmdirnar landsframleiðsluna allt tímabilið en það dregur úr áhrifunum í lok tímabilsins þegar stóriðjufjárfesting dregst hratt saman,“ segir í Þjóðhagsspánni.

Í þjóðhagsspánni kemur fram að ef af framkvæmdunum verður mun hagvöxtur aukast umtalsvert á næstu árum vegna þeirra en samdráttur í fjárfestingu í lok tímabilsins auk grunnáhrifa draga úr hagvextinum á seinni hlutanum. Þá gerir ráðuneytið ráð fyrir að atvinnuleysi dragist nokkuð saman á tímabilinu ef af framkvæmdunum verður.

„Áhrifin eru mest áberandi þegar framkvæmdirnar standa sem hæst árin 2010-2012 en síðan dregur úr þeim jafnt og þétt þegar líður á tímabilið þegar atvinnuleysið fer minnkandi,“ segir í Þjóðhagsspánni.