Fjármálaráðuneytið hefur hækkað hagvaxtarspá sína fyrir árið 2007 og spáir nú 2,2% hagvexti á árinu en í spá ráðuneytisins í haust var spáð 1% hagvexti.

Í endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins, sem kynnt var í morgun, kemur fram að árið 2007 er gert ráð fyrir miklum samdrætti í fjárfestingu við lok núverandi stóriðjuframkvæmda og nokkrum samdrætti einkaneyslu vegna veikingar á gengi krónunnar og auknu aðhaldi í efnahagsstjórn.

Þrátt fyrir það er því spáð að aukinn útflutningur áls segi til sín og hagvöxtur verði 2,2% í ár. Að sögn Þorgeirs Þorsteinssonar, skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, er þarna um að ræða talsverða breytingu frá fyrri spá. Þar skipti nokkru meiri fjárfestingar vegna þess að stóriðjuframkvæmdir hefðu dregist á langinn.

Í endurskoðaðri spá kemur fram að á árinu 2006 tók loks að hægja á vexti þjóðarútgjalda, þ.e. neyslu og fjárfestingar. Hagvöxtur er áætlaður 2,5% síðastliðið ár. Vegna áframhaldandi bata í utanríkisviðskiptum er spáð 3,1% hagvexti árið 2008.