Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu mun kjararáð ekki ákvarða laun forstjóra Icelandair og miða þau við laun forsætisráðherra. Gunnar Björnsson skrifstofustjóri segir að þetta kunni hugsanlega að breytast ef Icelandair Group yrði tekið undan yfirráðum Stoða og Glitnis og ríkið yrði beinn meirihlutaeigandi í félaginu eða móðurfélagi þess.

Segir Björn þetta líka spurning um hversu lengi Icelandair geti verið undir yfirráðum banka áður en það er fært beint sem félag í eigu ríkisins. Þar getur líka  verið spurning um hversu lengi heimilt sé að hafa hlutina með þessum hætti, þar sem bönkum er í eðli sínu ekki ætlað að eiga og reka önnur félög í óskildum rekstri.

Gunnar segir ekki einfalt að túlka úrskurðarvald kjararáðs samkvæmt nýju lögunum. Sem dæmi þá sé nýi Landsbankinn beint í eigu ríkisins og falli því undir skilgreiningu nýju laganna um kjararáð. Sömu sögu sé t.d. að segja af t.d. Regin sem er dótturfélag Landsbankans. Ef Regin stofnaði hins vegar dótturfélag með örðu dótturfélagi þá félli það ekki undir kjararáð.

Þá flækist málið enn frekar þegar horft er til gömlu bankanna Glitnis, gamla Landsbankans og gamla Kaupþings. Þar eru í gangi slitastjórnir eða skilanefndir og félög undir þeirra valdsviði falla alls ekki undir ákvörðunarvald kjararáðs eins og nýju bankarnir sem spruttu út úr þeim gömlu.