Fjármálaráðherra hefur ákveðið að skipa verkefnisstjórn um stefnumótun og undirbúning að kynjaðri hagstjórn (gender budgeting).

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins en óskað verður tilnefninga frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Jafnréttisstofu og Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands í verkefnisstjórnina, en fulltrúi fjármálaráðuneytisins mun leiða verkefnið.

Þá kemur fram að jafnframt verður leitað eftir þátttöku jafnréttisfulltrúa allra ráðuneyta í starfinu.

Verkefnisstjórninni verður falið að skila innan árs áliti og tillögum um aðgerðir til að innleiða leikreglur kynjaðrar hagstjórnar.