Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að innflutningur svokallaðra hálf-varanlegra neysluvara muni dragast saman á næstunni samfara minni innflutningi fjárfestingarvara, auk þess sem lægra gengi krónunnar muni draga úr innflutningi fólksbifreiða og ýmissa neysluvara. Þetta kemur fram í vefriti ráðuneytisins.

Dæmi um varanlegar neysluvörur eru heimilistæki en hálf-varanlegar vörur eru t.d. fatnaður og skór.

Færri bílar, meira bensín og ál

Töluvert dró úr innflutningi fólksbíla á milli janúar og febrúarmánaðar, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands, en þess ber þó að geta að hann var í sögulegu hámarki í janúar. Einnig dró nokkuð úr innflutningi á öðrum flutningstækjum til einkanota sem og flutningatækjum til atvinnurekstrar.

Lítillega dró úr innflutningi fjárfestingarvara og mat- og drykkjuvara og töluverður samdráttur var í innflutningi á varanlegum neysluvörum. Á móti kom að innflutningur á eldsneyti og smurolíum jókst um 10%, sem og hrá- og rekstrarvörum, þar sem aukinn innflutningur á áloxíði vegur þyngst. Þá var einnig nokkur aukning á innflutningi á vörum á borð við klæði og skæði.