Fjármálaráðherra telur ekki inn í myndinni á þessu stigi að forræði á málefnum lífeyrissjóðanna færist frá fjármálaráðuneyti til viðskiptaráðuneytis, eins og hið síðarnefnda hefur farið fram á.

Fram kom í Viðskiptablaðinu í liðinni viku að viðskiptiráðuneytið hefði farið fram á viðræður um málið, þar eð afstaða þess væri að betur færi á að eitt ráðuneyti færi með eftirlitshlutverk á fjármálamarkaði, en Fjármálaeftirlitið heyrir undir það ráðuneyti. Vonuðust menn þar eftir ásættanlegri niðurstöðu, þ.e. tilfærslu á milli ráðuneyta.

Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir að í þeim tilfærslum á verkefnum á milli ráðuneyta sem urðu hjá stjórnarráðinu um áramót hafi ekki verið gert ráð fyrir flutningi á málefnum lífeyrissjóðanna á milli ráðuneyta. Þau mál séu ekki til athugunar hjá ráðuneytinu.

"Eðli lífeyrissjóðanna er talsvert annað en hefðbundinna fjármálafyrirtækja, sem er meginástæða þess að við teljum að forræði þeirra eigi fremur að vera á höndum fjármálaráðuneytisins en annarra ráðuneyta. Málið er því ekki til skoðunar hér og ég tel ekki miklar líkur á að það verði," segir Böðvar.