Fyrr í vor hittist hópur stjórnmálamanna, háttsettra embættismanna, bankamanna og erlendra fyrirmanna í gylltum sölum breska utanríkisráðuneytisins í London. Það sem var óvenjulegt við slíkan fund var að hvergi var áfengan drykk að sjá.

Tilefnið var nefnilega það að vekja athygli á London sem stækkandi miðstöð fyrir íslamska bankastarfsemi, sem er lítill en hraðvaxandi geiri þar sem reynt er að blanda saman nútímakapítalisma og grunngildum íslamskrar trúar. Ræðurnar voru stuttar og skálað var í goslausu vatni og mangósafa í stað áfengis úr vínkjöllurum ráðuneytisins. Stutt hlé var gert á samkomunni svo gestir gætu beðist fyrir í sérstöku herbergi sem undirbúið hafði verið til slíkra nota.

Bresk stjórnvöld kynntu í fyrra áætlun um verða fyrsta vestræna ríkið til að gefa út íslamskt skuldabréf. Slík bréf, eða sukuk , eru hönnuð með það í huga að brjóta ekki gegn banni íslamstrúar gegn vöxtum. Fyrir innvígða var þetta enn ein staðfestingin á því að íslömsk fjármálastarfsemi væri komin til að vera.

„Bretland er eitt af stærstu og þróuðustu hagkerfum heims og það er nú að gefa út vottorð fyrir íslamska fjármálastarfsemi,“ segir Afaq Khan, yfirmaður Saadiq, sem er íslamskt dótturfélag Standard Chartered. „Þetta er stuðningsyfirlýsing og sendir þau skilaboð að íslömsk fjármálastarfsemi sé mætt á svæðið.“

Ítarlega er fjallað um íslamska bankastarfsemi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .