Viðskiptaráð segir að í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar felist ákveðin mótsögn. Því annars vegar eru færð margvísleg og góð rök fyrir ábyrgri fjármálastefnu, en á sama tíma fela afkomumarkmið tillögunar ekki í sér ábyrga fjármálastefnu að mati ráðsins.

Bjartsýnasta þjóðhagsspá óábyrg forsenda

„Áætluð afkoma upp á 1,6% af vergri landsframleiðslu árið  2018 þar sem forsendan er bjartsýnasta þjóðhagsspá síðan  fyrir bankahrun mun seint teljast ábyrg fjármálastefna," segir í umsögninni og er þar vísað í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá í nóvember.

„Í þjóðhagsspánni er sett fram brothætt sviðsmynd þar sem lítið má útaf bregða til að útkoman verði á annan máta
en spáin segir til um."

Ekki gert ráð fyrir styrkingu krónunnar

Nefnir Viðskiptaráð ýmislegt sem útaf geti brugðið frá spánni, þá helst gengi krónunnar, en þjóðhagsspáin gerir ráð fyrir því að samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja haldist því gengi krónunnar verði stöðugt.

Hins vegar spá bæði Seðlabanki Íslands sem og greiningardeildir stóru bankanna áframhaldandi styrkingu krónunnar og síðan spá Hagstofunnar birtist hefur krónan haldið áfram að styrkjast.

„Ef gengi krónunnar þróast í takt við spá Seðlabankans  væri forsenda þjóðhagsspár Hagstofunnar um áframhaldandi  aukningu útflutningstekna einstakt efnahagslegt afrek," segir í umsögninni. „Ekki er forsvaranlegt að reiða sig á slíka bjartsýnisspá í opinberum rekstri.

Felur í sér útgjaldaaukningu

Hér er einungis tekið dæmi um einn þátt af fjölmörgum þar sem fjármálastefnan gerir ráð fyrir bestu mögulegu  útkomu.
Aðrir mögulegir áhættuþættir eru til dæmis lækkun hrávöruverðs,raskanir á vinnumarkaði, aflabrestur í stórum fiskveiðistofni, fækkun ferðamanna, samdráttur í útflutningi alþjóðlegra fyrirtækja, auk fleiri atriða sem ómögulegt er að spá fyrir um.“

Jafnframt er talað um að markmið um að útgjöld hins opinbera fari ekki yfir 41,5% af landsframleiðslu séu undir meðaltali síðustu ára, þá feli stefnan í sér útgjaldaaukningu þar sem gert er ráð fyrir að landsframleiðsla aukist á tímabilinu.

Fóru í 55% á einu ári

„Reynslan hefur sýnt að þegar harðnar í ári eru opinber  útgjöld tregbreytanleg stærð. Það sást bersýnilega í  síðustu fjármálakreppu þegar opinber útgjöld jukust úr 41%  í 55% af landsframleiðslu á einu ári."

Viðskiptaráð metur að ákjósanlegt væri að ríkið myndi greiða hraðar niður skuldir heldur en afkomumarkmið fjármálastefnunnar gera kleift. Jafnframt hafa markmið stjórnvalda í ríkisfjármálum ekki rímað við endananlega niðurstöðu.

Óhjákvæmileg framúrkeyrsla

„Samkvæmt úttekt Samtaka atvinnulífsins hefur ríkisreikningur farið að meðaltali 5,9% fram úr fjárlögum hvers árs eftir hrun. Sé horft til fjárlagafrumvarpa hefur framúrkeyrslan numið 8,4% að  meðaltali," segir í umsögninni.

„Ef mynstur síðustu sjö ára helst óbreytt þarf fyrirlögð fjármálastefna að fela í sér íhaldssöm markmið um afkomu,  svo hægt sé að gera ráð fyrir óhjákvæmilegri framúrkeyrslu sem framangreindum tölum nemur.“