Fjármálastjórarnir hafa nú orðið bestu líkurnar á að ná stöðu framkvæmdastjóra í fyrirtækjum heimsins, þó svo að reynsla af stjórnun á einhverjum hliðum rekstrarins teljist líka notadrjúgt veganesti í stól framkvæmdastjóra.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á vegum Monika Hamori, prófessors í mannauðsstjórnun við Instituto de Empresa in Madrid. Áður fyrr voru það markaðsmennirnir sem líklegastir voru til að hreppa hnossið.

Könnun Hamori var unnin í samvinnu við Peter Cappelli hjá Wharton-háskólanum í Fíladelfíu í Bandaríkjunum og náði til fyrirtækja á S&P 500-listanum, þ.e. fyrirtækja sem skráð eru í S&P vísitölunni í Bandaríkjunum, og fyrirtæki sem skráð eru á FTSEurofirst 300 í Evrópu.

Telja þau skýringuna á þessari upphefð fjármálastjóranna vera m.a. auknar áherslur fyrirtækja á að geta sýnt góðan árangur í ársfjórðungsuppgjörum sínum og þrengi lagalegt svigrúm fyrirtækja varðandi ýmsa rekstrarþætti sína.

Niðurstaða þeirra er einnig sú að sá sem ræður sig til fyrirtækis til langframa sé fljótari að komast í stól framkvæmdastjóra en þeir sem flögra á milli þeirra.

„Lífstíðarmennirnir” séu þannig 22 ár að komast á toppinn í bandarískum fyrirtækjum, 24 ár í Evrópu, en þeir sem farið hafa á milli fjögurra eða fleiri fyrirtækja séu 26 ár að meðaltali að ná æðstu stöðu.

Vegalengdin á toppinn er þó fljótfarnari en áður tíðkaðist samkvæmt könnuninni. Meðaltíminn frá fyrsta starfi til stöðu framkvæmdastjóra hefur styst um fjögur ár sé litið til 1980 annars vegar og 2001 hins vegar. Einnig hafa framkvæmdastjórar haft viðdvöl í færri störfum á leið sinni í starfið, eða fimm að meðaltali árið 2001 í stað sex tuttugu árum fyrr.

Meiri harka í Evrópu?

Bandaríkin eru gjarnan álitin höfuðvígi óhefts kapítalisma en könnun Hamori/Cappelli og einnig könnun á vegum ráðgjafafyrirtækisins Booz & Company sýna fram á að í Evrópu sé starfsumhverfi framkvæmdastjóra harðneskjulegra.

Benda kannanirnar t.d. á að framkvæmdastjórar í evrópskum fyrirtækjum eru yngri að árum, en meðalaldur þeirra er 54 ár í samanburði við 56 ár í Bandaríkjunum.

Hamori/Cappelli-könnunin sýnir einnig að 26% þeirra manna sem landa framkvæmdastjórastöðu í Bandaríkjunum gegna henni til loka starfsævinnar en í Evrópu er þetta hlutfall mun lægra, eða 18% Þar er líka meiri hreyfing á mönnum og bendir könnun Booz & Company á að 17,6% af framkvæmdastjórum Evrópu hafi skipt um starf á seinasta ári, í samanburði við 15% af framkvæmdastjórum í Bandaríkjunum og 10% í Japan.

Þá ílengjast framkvæmdastjórar í Bandaríkjunum lengur í starfi, eða í níu ár að meðaltali í samanburði við tæp sjö ár í Evrópu. Þar að auki stöfuðu vistaskipti evrópskra framkvæmdastjóra í Evrópu af brottrekstri í 37% tilvika en í Bandaríkjunum var þetta hlutfall 27% og 12% í Japan.

Valdatogstreita innan stjórna

Niðurstaða Booz er sú að í þriðjungi tilvika sé ástæða uppsagnar valdatogstreita og átök innan stjórna fyrirtækjanna sem um ræðir. Þeir telja þetta til marks um að hluthafarnir láti til sín taka í síauknum mæli og setji þar með auknar kvaðir á framkvæmdastjóranna að standa sig í starfi.