Peter Oppenheimer, fjármálastjóri Apple, ætlar að setjast í helgan stein í september. Hann hefur þegar tekið að horfa annað en hann tók sæti í stjórn bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs í vikubyrjun.

Bloomberg-fréttaveitan fjallar um væntanlegt brotthvarf Oppenheimer og rifjar upp að þótt hann hafi ekki verið einn af arkitektunum að tólum og tækjum fyrirtækisins þá hafi hlutverk hans ekki verið síst mikilvægara þegar kom að peningahliðinni. Oppenheimer þessi, sem var um tíma hæstlaunaðasti starfsmaður Apple, er sagður heilinn á bak við stofnun aflandsféalga fyrirtækisins sem sagt var byggt upp til að koma í veg fyrir eða í það minnsta lækka verulega skattgreiðslu Apple.

Bandaríska dagblaðið New York Times fjallaði ítarlega um málið fyrir að verða tveimur árum. Þingnefnd bandarísku öldungadeildarinnar kallaði síðan þá Tim Cook, forstjóra Apple, og Oppenheimer á teppið og krafði þá svara um aflandsfélögin og færslu á hagnaði úr landi til að forðast skattgreiðslur. Aflandsfélögin eru m.a. á Írlandi en þar eru 70 milljarðar dala sagðir hvíla á reikning fyrirtækisins og greiðir Apple 2% skatt af fénu í stað 25% í Bandaríkjunum. Þá segir Bloomberg að Oppenheimer hafi verið sá sem teiknaði upp arðgreiðslustefnu Apple. Það var m.a. gert með töku láns sem Goldman Sachs sá um. Arðgreiðslan og lántakan átti m.a. að koma í veg fyrir að Apple þyrfti að sækja fé úr aflandsfélögum til að greiða skatta.

Niðurstaða nefndarinnar var á þann veg að ekkert benti til að Apple hefði stungið undan skatt.