Ráðgjafafyrirtækið Butlers, sem er í eigu Michael Spencer, fjármálastjóra breska Íhaldsflokksins ráðlagði sveitafélögum þar í landi að geyma sparifé sitt á reikningum íslensku bankanna.

Fram kemur í breska blaðinu The Daily Telegraph að íslensku bankarnir hefðu greitt Butlers þóknun fyrir að færa þeim viðskipti. Þá kemur einnig fram að Spencer sjálfur hafi verið meðal þeirra sem tók ákvörðun um að beina viðskiptavinum til íslensku bankanna.

Af þeim 116 sveitafélögum sem tapað hafi fjármagni í kjölfar hruns íslensku bankanna hafi nærri helmingur þeirra, eða 51 sveitafélag fengið ráðgjöf hjá fyrirtæki Spencer. Heildartap þessara sveitafélaga er um 470 milljónir Sterlingspunda.

Þá segir blaðið að þau sveitafélög sem þegið hefðu ráðgjöf Butlers hefðu að öllum líkindum verið í tvöfalt meiri hættu en önnur sveitafélög á því að tapa fjármagni sínu.

Fram kemur í frétt Telegraph að Butlers, ásamt móðurfélaginu ICAP hefðu öll leyfi breska fjármálaeftirlitsins til að veita ráðgjöf.

Þá kemur fram að margar sveitastjórnir í Bretlandi séu félaginu nú reið þar sem þau hefðu ekki verið vöruð við ástandi bankanna en samkvæmt samningi við Butlers bara ráðgjafafyrirtækinu að fylgjast með stöðu bankanna og bregðast við ef hætta væri á ferðum.

Samkvæmt skýrslu sem endurskoðunarfélagið PricewaterhouseCoopers vann fyrir sveitastjórnina í Kent sýslu (þar sem Íhaldsmenn eru í meirihluta) á SV-Bretlandi kemur fram að Butlers hefði varað sveitastjórnina við þann 30. september s.l. sama dag og íslenska ríkið hefði yfirtekið um 75% hlutafjár í Glitnis.

Í tilkynningu frá ICAP kemur fram að Butlers hefði einungis ráðlagt sveitastjórnum um fjárfestingar og geymslu sparnaðar. Ákvörðunin hefði síðan verið tekin af viðeigandi sveitastjórnum um hvar eyrinn skyldi geyma.

35% þeirra sveitafélaga sem Butlers veitti þjónustu töpuðu fjármagni eftir hrun íslensku bankanna.