Jonathan M. Peacock, fjármálastjóri bandaríska líftækni- og lyfjafyrirtækisins Amgen, sagði í dag upp hjá fyrirtækinu. Amgen er eigandi Íslenskrar erfðagreiningar. Hann mun engu að síður vinna hjá því áfram fram í maí. Bandaríska dagblaðið Los Angeles Times segir Peacock fá 1,5-föld árslaun sín í starfslokagreiðslu. Hann var með 882 þúsund dali í laun árið 2012. Það gera rétt rúmar 100 milljónir króna og fær hann því rúmar 150 milljónir króna þegar hann hættir.

Amgen keypti Íslenska erfðagreiningu í desember árið 2012 fyrir jafnvirði 52 milljarða íslenskra króna.

Blaðið segir Peacock ætla að leita fyrir sér á öðrum vettvangi og hefur eftir Robert Bradway, forstjóra Amgen, að fjármálastjórinn hafi frá því hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2010 átt stóran þátt í vexti Amgen.