Sunna Einarsdóttir, nýr fjármálastjóri Deloitte á Íslandi og liðstjóri viðskiptalausna hjá fyrirtækinu, segir aukið vægi rekstrar- og fjármálaráðgjafar í starfsemi Deloitte vera mjög spennandi þróun.

„Og þetta nýja hlutverk hjá fyrirtækinu er ákveðin prófraun á þessa þjálfun sem ég hef persónulega fengið í gegnum þetta prógram, þar sem það er í rauninni búið að þjálfa mig í fjögur ár í því að geta leyst störf fjármálastjóra. Ég er spennt fyrir því að taka þessa sýn frá Danmörku að fjármálastjórinn sé svolítið að breytast, áherslurnar og verkefnin,“ segir Sunna.

Tæknin breytir fjármáladeildinni

„Þetta er að breytast svolítið í áttina að því að verða stefnumótunarhlutverk. Að geta tekið vel ígrundaðar ákvarðanir og beint fyrirtækinu í rétta átt, byggt á þessum fjárhagslega bakgrunni sem maður er með. Þetta er orðið margþætt hlutverk og mjög spennandi. Það er einmitt þannig sem við hugsum þetta hjá okkur, að fyrir utan gæðastjórnun á tölum og áhættu þá er partur af hlutverkinu að vera hvati fyrir restina af fyrirtækinu, að beina því í rétta átt samkvæmt stefnu fyrirtækisins.

Með þessari framþróun sem er búin að vera í tækni og verkferlum undanfarið fer fjármáladeildin að breytast. Á meðan stærsti hlutinn af tímanum hefur áður farið til dæmis í að slá inn tölur og sjá til þess að þær bókist á rétta reikninga, skanna inn reikninga og vinna afstemmingar handvirkt, þarf minni kraft í þann hluta og meiri tími gefst þá til að sinna skýrslugerð til annarra stjórnenda sem getur hjálpað þeim að stýra rekstrinum í rétta átt. Þetta er ótrúlega spennandi og mikið af tækifærum þarna fyrir fjármálastjóra.“

Þetta er kannski eitthvað sem íslensk fyrirtæki munu gera í auknum mæli á næstu misserum?

„Þetta er sú þróun sem ég hef séð í Danmörku og hefur reynst fyrirtækjum vel, þannig að ég býst sterklega við því að fyrirtæki nýti sér í auknum mæli alla þá tækni, ráðgjöf og verkferla sem eru í boði og þar fyrir utan þessa útvistunarmöguleika fyrir fyrirtæki þar sem það hentar. Það skiptir miklu máli að nýta mannauðinn sem best, og að nýta fjármáladeildina í auknum mæli til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .