Ívar S. Kristinsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair, keypti í dag hlutabréf í flugfélaginu fyrir 5,2 milljónir króna. Hann keypti sléttar þrjár milljónir hluta á genginu 1,73 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ívar átti fyrir nærri 1,2 milljónir að nafnverði í félaginu miðað við Kauphallartilkynningar í febrúar síðastliðnum og ágúst 2021 við nýtingu áskriftarréttinda. Hann á því um 4,2 milljónir hluta í félaginu sem er um 7,2 milljónir króna að markaðsvirði.

Ívar hefur starfað hjá Icelandair frá árinu 2010 en hann tók við sem fjármálastjóri flugfélagsins síðasta sumar. Hann hafði áður gegnt stöðu framkvæmdastjóra flotamála og leiðakerfis félagsins og þar áður verið stjórnandi á fjármálasviði.