Íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs fjölgaði um 537 á árinu. Sjóðurinn átti í lok síðasta árs samtals 1.606 fasteignir. Fasteignum í eigu sjóðsins hefur fjölgað umtalsvert á síðustu tveimur árum en í byrjun árs 2010 átti sjóðurinn 347 íbúðir. Íbúðunum hefur því fjölgað um 1.259 á aðeins tveimur árum en þessi mikla aukning er tilkomin vegna greiðsluerfiðleika lántakenda hjá sjóðnum. Þetta kemur fram í morgunkornum greiningardeildar Íslandsbanka í dag.

Talsvert af íbúðum er nú í eigu fjármálastofnana en heildarfjöldinn undir lok síðasta árs var í kringum 3.000 íbúðir. Sjá má að rúmlega helmingur þessa er í eigu Íbúðalánasjóðs. Þetta eru um 2,3% af heildarfjölda íbúða í landinu. Þó er um að ræða stóran hluta veltunnar á íbúðamarkaðinum en á síðasta ári gengu 6.600 íbúðir kaupum og sölum á landinu öllu.

Í morgunkornum er vakin athygli á að þetta mikla framboð íbúða sem „bíði á hliðarlínunni“ í eigu fjármálastofnana sé einn helsti óvissuþátturinn í spá um þróun íbúðaverðs. Svo mikið framboð gæti haft áhrif á íbúðaverð til lækkunar ef það yrði losað inn á markaðinn á stuttum tíma. Greiningardeildin segir þó ólíklegt að svo verði enda hafi Íbúðalánasjóður farið sér mjög hægt í þessum efnum.

Morgunkorn Íslandsbanka má lesa hér.