Minnst 90 lögbýli voru í eigu fjármálastofnana um síðustu áramót, samkvæmt Lögbýlaskrá. Það eru um 1,4% allra lögbýla á landinu en þau voru í heild 6447.

Í Bændablaðinu segir að umrædd lögbýli eða jarðir hafi ýmist verið í eigu fjármálastofnananna sjálfra eða dótturfélaga þeirra. Samkvæmt upplýsingum sem Bændablaðið hefur fengið frá umræddum fjármálastofnunum hefur jörðum í þeirra eigu í flestum tilfellum fækkað það sem af er ári.

Flest þessara lögbýla eiga fjármálastofnanirnar að fullu en í fáum tilvikum eiga þau jarðirnar með öðrum eigendum . Landsbankinn og dótturfélög hans áttu langflestar þessara jarða, eða 48 lögbýli.