Fjármálastofnunum verður gert skylt að senda skattyfirvöldum ár hvert upplýsingar um bankainnstæður og innstæður í sjóðum ásamt upplýsingum um vexti af viðkomandi innstæðum.

Þetta kemur fram í frumvarpi fjármálaráðherra um tekjuskatt en að sögn ráðuneytisins eru óvenjumör frumvörp á ábyrgðarsviði fjármálaráðherra nú til meðferðar á Alþingi.

Í vefriti ráðuneytisins kemur fram að fram til þessa hafa bankar og sparisjóðir ekki sent umræddar upplýsingar óumbeðið, heldur hefur tilgreining þeirra á skattframtali alfarið verið háð vilja einstakra framteljenda.

„Þetta fyrirkomulag, þ.e. að ekki liggi fyrir sundurliðaðar upplýsingar um afdreginn fjármagnstekjuskatt, hefur gert allt eftirlit með þeim skattstofni nánast óframkvæmanlegt,“ segir í vefriti ráðuneytisins.

„Ljóst er að verði umrædd tillaga lögfest stuðlar hún að mun meira jafnræði milli skattþegnanna, ekki síst í ljósi þess að ýmsar bótagreiðslur, svo sem bætur almannatrygginga, eru ákvarðaðar á grundvelli framtalinna heildartekna hjá rétthöfum þeirra.“

Þá kemur fram að samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum ársins 2008 fengu meira en 35 þúsund einstaklingar greiddar einhvers konar tekjutengdar bætur á árinu 2007 án þess að fram væru taldar innstæður í bönkum og sparisjóðum.

„Ekki er ólíklegt að einhver hluti þess hóps hafi látið hjá líða að telja fram inneignir sínar og vaxtatekjur,“ segir í vefriti ráðuneytisins.

„Sjálfvirk skil á umræddum bankaupplýsingum eru því ekki aðeins mikilvæg aðhaldsaðgerð gegn undandrætti tekna frá skatti, heldur skapa þau mótvægi gegn misnotkun á bótarétti frá hinu opinbera. Síðast en ekki síst munu slík skil leiða til þess að umræddar upplýsingar verða forskráðar á framtölin til mikillar einföldunar og hagræðis fyrir framteljendur.“