Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, hélt kynningu á íslensku fjármálasveiflunni í gær. Ásamt Þórarni eru höfundar kynningarinnar þeir Bjarni G. Einarsson, Kristófer Gunnlaugsson og Þorvarður Tjörvi Ólafsson. Kynning hagfræðinganna skoðar efni rannsóknar sem höfundarnir framkvæmdu. Mikilvægi samspils fjármálakerfisins og þjóðarbúskaparins fyrir efnahagsþróun Íslands er þar í brennidepli.

Fjármálasveiflan, samkvæmt skilgreiningum höfunda kynningarinnar, er langtímasveifla margra fjármálastærða á borð við húsnæðisverð, útlán og peningamagn auk stærðar og samsetningar efnahagsreikninga bankakerfisins. Rétt eins og hagsveiflur þjóðar eru mældar eftir fjölda þjóðhagsstærða, til að mynda vergri landsframleiðslu, viðskiptajöfnuði við útlönd, viðskiptakjör og verðbólgu.

Fjármálasveiflan er samkvæmt höfundum löng, eða um 16 ár að meðaltali. Með tíma hefur uppsveiflufasi hverrar sveiflu lengst meðan samdráttarfasi hennar helst óbreyttur. Auk þess hefur sveiflan orðið öflugri og öfgakenndari með tíð og tíma.

Auk þess er snert á því að náin tengls séu milli fjármálasveiflna og fjármálakreppa. Toppar hverrar fjármálasveiflu fyrir sig eiga þá mikla samsvörun við alvarleg efnahagsáföll og fjármálakreppur hér á landi, en einkum hvað varðar bankakreppur eða fjölþættar fjármálakreppur. Nánast allir toppar fjármálasveiflna eru innan þriggja ára glugga frá einhvers konar fjármálaáfalli.

Af þessum niðurstöðum draga rannsakendur þá lærdóma að erfitt virðist vera að skilja efnahagsþróun Íslands án þess að skilja fjármálasveifluna. Þá sé íslensk efnahagsframvinda einnig tengdari heimsbúskapnum en áður hafði verið talið. Að lokum segir að niðurstöðurnar kalli á sterkari umgjörð hagstjórnar varðandi fjármálasveifluna.

Fyrir áhugasama má lesa kynninguna í heild sinni með því að smella hér.