Thomson mun borga 8,8 milljarða sterlingspunda með reiðufé og hlutabréfum fyrir Reuters. Sameinað fyrirtæki yrði það stærsta í heimi þegar kemur að miðlun fjármálaupplýsinga og myndi ráða yfir þriðjungi af markaðinum. Markaðsverðmæti sameinaðs fyrirtækis verður 22,5 milljarðar punda.

Reuters er ein þekktasta fréttastofa heims en helsta tekjulind fyrirtækisins er miðlun fjármálaupplýsinga. Thomson er kanadískt upplýsingafyrirtæki sem einnig selur lögfræði- og skattaþjónustu ásamt því að vera þekkingarmiðlun á öðrum sviðum. Undanfarið hefur fyrirtækið lagt áherslu á að hasla sér völl í fjármálaupplýsingageiranum. Í dag er það þriðja stærsta fyrirtæki heims í þeim geira á eftir Bloomberg og Reuters.

Í sameiginlegri yfirlýsingu forráðamanna fyrirtækjanna tveggja mun sameinað fyrirtæki fá nafnið Thomson-Reuters en hinsvegar verða hlutabréf þeirra beggja áfram skráð í sitthvoru lagi á hlutabréfamörkuðum. Thomson-fjölskyldan, sem ræður yfir um 70% hlutabréfa í Thomson, mun áfram hafa töglin og hagldirnar í hinu sameinaða fyrirtæki.

Fréttir af yfirtökutilboði í Reuters bárust fyrst síðastliðinn föstudag. Í kjölfarið hækkaði gengi hlutabréfa í Reuters um fjórðung. Tilboð Thomson metur Reuters á 697 pens á hlut. Sérfræðingar telja að gengi hlutabréfa í Reuters muni haldast nokkrum prósentum fyrir neðan tilboðið vegna endurspeglunar á þeirri áhættu að ekkert verði af sameiningunni. Fram kom í yfirlýsingunni að enn væri langt í land í viðræðunum um sameiningu en auk þess að ná fram samstöðu meðal hluthafa þyrfti að fá samþykki viðeigandi samkeppnisyfirvalda.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.