Björgólfur Thor Björgólfsson er auðugastur Íslendinga í dag og hefur gríðarleg umsvif á Íslandi og í Búlgaríu en fjárfestingar hans í þessum löndum eru mjög miklar en hann er stærsti einstaki fjárfestirinn í báðum þessum löndum. Ljóst er að hann hefur notið einstakrar ávöxtunar á fjárfestingar sínar undanfarin ár en hann virðist hafa einstakt auga fyrir fjárfestingakostum og hefur traust og tiltrú til að koma að einkavæðingarverkefnum, jafnvel þar sem aðrir komast ekki að.

Björgólfur Thor er í 350. sæti yfir ríkustu menn heims, samkvæmt útreikningum bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes en hann var fyrstur Íslendinga til að komast á lista þeirra. Björgólfur Thor starfar náið með þeim fjárfestingafélögum sem hann á í hér heima og nýlega var greint frá því að hann stefndi að stofnun vogunarsjóðs með umtalsverðum fjárfestingastyrk þó nákvæmar upplýsingar um hann liggi ekki fyrir. Hann er stjórnarformaður í Actavis sem er stærsta einstaka eign hans fyrir utan Novator. Sömuleiðis er hann stjórnarformaður í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka (S-BF) og er ljóst að hann vill gjarnan tvinna saman félög í sinni eigu við einstök verkefni þó hann haldi eignarhaldi þeirra aðskildu. Ljóst er að umsvif hans verða enn meiri á næstu árum en í úttekt Viðskiptablaðsins í dag er viðskiptasaga hans rakin.

Ítarleg úttekt er á viðskiptaveldi Björgólfs Thors í Viðskiptablaðinu í dag.