Gerð Hollywood-myndarinnar The Wolf of Wall Street var fjármögnuð af malasíska þróunarsjóðnum 1MDB, sem er í eigu malasíska ríkisins og var ætlað að fjármagna efnahagsuppbyggingu í landinu. 155 milljónir dollara, jafnvirði 19 milljarða króna, voru millifærðir með krókaleiðum úr þróunarsjóðnum og til framleiðslufyrirtækisins Red Granite Pictures sem fjármagnaði gerð myndarinnar. The Wall Street Journal greinir frá þessu.

1Malaysia Development Berhad (1MDB) var stofnaður af forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, árið 2009. Yfirlýst markmið sjóðsins var að styðja við efnahagsuppbyggingu í Malasíu. Riza Aziz, stjúpsonur Razak, er stjórnarformaður Red Granite Pictures.

The Wolf of Wall Street halaði inn um 400 milljónum dollara. The Wall Street Journal segir engar vísbendingar um að neitt af þeim fjármunum hafi farið aftur til 1MDB eða til malasíska ríkisins.

Fjármögnuð úr skattaskjóli

Árið 2014 sagði Aziz að The Wolf of Wall Street væri fjármögnuð af Mohamed Ahmed Badawy Al-Husseiny, fjárfesti í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Al-Husseini var þá forstjóri Aabar Investments PJS, dótturfyrirtæki ríkisfjárfestingasjóðs furstadæmanna. Samkvæmt fjárhagsupplýsingum 1MDB greiddi sjóðurinn um 1,4 milljarð dollara til Aabar árið 2012 sem veð vegna skuldatrygginga.

Rannsókn FBI hefur leitt í ljós að þessir fjármunir fóru aldrei til Aabar heldur til fyrirtækis á Bresku Jómfrúreyjum. 155 milljónir dollara voru síðan millifærðir með krókaleiðum til Red Granite Pictures. 50 milljónir dollara hafa verið greiddir til baka, en eftir standa 105 milljónir dollara. The Wall Street Journal hefur eftir talsmanni Red Granite að fyrirtækið hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að uppruni þessa fjármagns væri óeðlilegur.

Lifðu sig inn í heim myndarinnar

31. desember 2012, um það leyti sem tökur á myndinni voru að klárast, fögnuðu margir þeirra sem komu að myndinni áramótunum í Ástralíu. Þeir leigðu síðan einkaþotu og flugu til Las Vegas til að fagna áramótunum aftur, að sögn einstaklinga sem voru í ferðinni.

Á meðal þeirra sem voru í för voru Riza Aziz, Leonardo DiCaprio og Jonah Hill sem léku báðir í myndinni, og Jamie Foxx sem er vinur Aziz. Þá var Jho Low, annar vinur Aziz, með í för. Hann hafði komið að stofnun 1MDB.

Sex mánuðum eftir að myndin kom út fóru DiCaprio, Aziz og Low á heimsmeistaramótið í fótbolta í Brasilíu. Þar vörðu þeir tíma í Topaz, 150 metra langri lystisnekkju í eigu Sheik Mansour Bin Zayed Al Nahyan, stjórnarformanns arabísks ríkisfjárfestingasjóðs. Sheik Mansour er nú varaforsætisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

The Wolf of Wall Street var aldrei tekin til sýninga í Malasíu. Stjórnvöld fóru fram á að yfir 90 atriði væru klippt úr myndinni svo hún stæðist malasísk lög um siðferði.

Grein The Wall Street Journal.