Annar hluti fjármögnunar MF1 slhf. hefur verið lokið og er stærð félagsins nú 4.000 milljónir króna, en fyrir stóð það í tæpum þremur milljörðum. Þetta kom fram í samtali við Brynjar Þór Hreinsson hjá Íslenskum verðbréfum.

Íslensk verðbréf hf. sjá um umsýslu og rekstur félagsins, en þau voru stofnuð árið 1987 og eru með um 125 milljarða króna í virkri stýringu fyrir sína viðskiptavini.

Sér um millilagsfjármögnun

Hlutverk MF1 slhf er að sjá um millilagsfjármögnun fyrirtækja, en félagið hefur þegar komið að fjölda verkefna í íslensku atvinnulífi.

„Aðkoma félagsins er meðal annars í formi lánveitinga, fjárfestinga í  skuldabréfum fyrirtækja og eftir atvikum, fjárfestingu í forgangshlutafé og hlutafé fyrirtækja,“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Fjölbreytt verkefni

Brynjar Þór Hreinsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Íslenskum verðbréfum, er annar framkvæmdastjóri MF1. Hann segir að mikil þörf sé fyrir slíkt félag á íslenskum fjármálamarkaði og að ánægjulegt hversu fjölbreytt verkefni þess eru.

„Með þessum áfanga sé félagið vel í stakk búið að styðja áfram við íslenskt atvinnulíf með öflugum hætti,“ segir Brynjar Þór og er ánægður með hve vel fjárfestar hafa tekið félaginu.