Tilraunir HBOS bankans til að verða sér úti um fjármagn með útgáfu nýrra hluta mistókust herfilega, en einungis um 8,3% af þeim hlutum sem gefnir voru út seldust. Umsjónarmenn hlutafjárútboðsins voru bankarnir Morgan Stanley og Dresdner Kleinworth og sitja þeir nú eftir með hluti í HBOS fyrir 3,8 milljarða punda til sölu.

Hluthafar HBOS keyptu hluti fyrir 124 milljónir punda í 4 milljarða hlutafjáraukningu. Bréfin voru boðin út á genginu 275 pens hvert, en markaðsverð HBOS féll niður fyrir það á meðan á útboðinu stóð.

Fyrirfram var búist við dræmum móttökum við hinu nýútgefna hlutafé og spáð var að um fjórðungur þess myndi seljast, samkvæmt frétt Reuters. Morgan Stanley og Dresdner Kleinworth hafa frest til síðdegis á morgun til að selja hlutina sem eftir eru á 275 pens á hlut eða meira, eftir það eru þeir tilneyddir að kaupa óseldu hlutina sjálfir.

Talið er að skortsölumenn bíði átekta eftir að kaupa hlutina aftur af Morgan Stanley og Dresen, þegar þeir neyðast til að lækka verðið.